staðsetning

laugardalshöll

Laugardalshöll, íþrótta- og sýningahöll eða Höllin eins og hún er oft nefnd í daglegu tali er um 6.500 m² að stærð.

Húsið er eitt stærsta íþrótta- og tónleikahús landsins og hefur hýst hina ýmsu stórviðburði í gegnum tíðina.

Laugardalshöll var teiknuð af Gísla Halldórssyni og Skarphéðni Jóhannessyni arkitektum árið 1959 og fyrst tekin í notkun 4. desember 1965 þar sem úrvalsliðs Reykjavíkur í handbolta tók á móti Baník Karviná frá Tékkóslóvakíu. Margir stórleikir hafa verið spilaðir síðan þá og af þeim er úrslitaleikurinn í HM í handbolta 1995 líklega sá stærsti.

Höllin hefur lengi verið notuð fyrir marga mismundi viðburði svo sem tónleikahald, þar sem stór nöfn á borð við Led Zeppelin og Eagles hafa troðið upp og ekki má gleyma  einhverju stærsta skákeinvígi allra tíma á milli Bobby Fischers og Boris Spasskíjs 1972.

Auk þess hafa oft verið haldnar þar stórar vörusýningar, svo sem heimilissýningar og atvinnuvegasýningar af ýmsu tagi.